15.5.02

Borgarmál: Nú er maður að verða mettaður af kosningaráróðri. Allir fjölmiðlar troðfullir af síglöðum og loforðamiklum frambjóðendum sem lofa betri heim. Allir ógeðslega snyrtilegir og brosandi með þaulæfðar ræður, mótrök og málefnina á hreinu... samt skil ég ekki neitt hvað þetta fólk er að segja.

Á flestum stöðum virðist baráttan snúast um skólamál og fjármál. Búa á til bestu skóla landsins í öllum sveitarfélögum á landinu. Hver getur staðið við slíkt ? Hvernig getur Kópavogur verið betri en Reykjavík ef Reykjavík ætlar alltaf að toppa Kópavog og öfugt ? Svo ekki sé talað um Garðabæ, Hafnafjörð, Seltjarnarnes, Akureyri o.s.frv. Nei ég bara spyr. Á síðustu þremur vikum virðist vera komin alveg gríðaleg samkeppni í skólamál og allir ætla að toppa hvorn annan. Einn besti frasinn í þessa áttina kom frá ungum frambjóðanda í Kópavogi í kosningarblaði sem ég rakst á þar sem hann fullyrti að ef það væri háskóli í Kópavogi myndi hann fara í hann. Það væri nefnilega svo mikil fyrirhöfn að dröslast til Reykjavíkur í skóla. Við erum að tala um nokkur hundruð metra fjarlægð í skólann, góðar almenningssamgöngur þar á milli svo ekki sé talað um einkabíla, hjólhesta eða tvo jafnfljóta. Ég ætti kannski að kvarta yfir því að það sé enginn Háskóli í Breiðholti eða hvað.

Einnig virðast allir vita lausnina á fjármálarekstri og meðhöndlun skattpeninga. Sjálfstæðismenn þykjast vera betri í obinberum rekstri, R-listinn segist hafa staðið sína vakt vel og F-listinn segist þetta snúast um gildismat. En allir eru sammála um að betur má ef duga skal. Auðvitað er það rétt þegar rætt er um rekstur borgarinnar að alltaf er hægt að gera betur, öll fyrirtæki geta hagrætt, breytt áherslum og vinnuaðferðum. Stundum er það til góðs og stundum til ills og ef það er til ills nú þá er bara breyt til baka aftur.

Umræðan að mínu viti er nokkuð flöt og þurr. Allir eru svo taktískir og almannatengsla sinnaðir að engir sénsar eru teknir á grunndvelli hugsjóna eða framtíðarsýnar. Aðeins er verið að tefla við andstæðinginn, sækja eða verjast. Stóru framboðinn eru að selja ímynd í stað hugsjóna og það er miður.

Botninum var náð í Kastljósi í vikunni þar sem auglýsingafræðingar skeggræddu kosningaherferðir D og R lista. Voru snillingarnir þar sammála um að D listinn væri að vinna. Lúkið væri áferðafallegra, myndræn uppsetning og markvissar birtingar í prennt og ljósvakamiðlum. Í auglýsinga mennsku skiptir nefnilega ekki máli hvort viðkomandi vara sé góð, henntug eða gagnleg. Aðeins skiptir máli að selja neytandanum hugmyndina um að svo sé. Þegar neytandinn er búinn að kaupa og fattar að það sé búið að ljúga að sér þá er það orðið of seint, hann situr uppi með misgóða vöru sem stendur oft ekki undir auglýstum væntingum. Þetta er allt í lagi þegar um ræðir sodastrím tæki og fótanuddtæki en þegar um milljarða króna hagsmunamál er að ræða þurfa menn að standa á stöðugri fótum. Auglýsingarnar eiga ekki bara að vera huggulegar og smart. Málefninn þurfa að vera pottþétt. Því þegar kjósandinn kemur heim á hann að komast að því að varan uppfylli væntingar.

Mér þykir því miður allt of mikill hórdómur vera í kringum kosningarnar og menn í öllum flokkum vera að selja sig ódýrt fyrir hvert einasta mögulega atkvæði. En kannski er þetta bara eðli kosningabaráttu og kannski er ég að biðja um eitthvað sem er ekki til. Kannski er óraunhæft að ætlast til þess að stjórnmálamenn komi til dyrana eins og þeir eru klæddir, óraunhæft að þeir reyni að komast að út á eigin verðleika í stað þess að benda bara á ókosti andstæðingsin. Óraunhæft að vonast til þess að bestu skoðanirnar komist til valda í stað þess að dýrustu (þ.e. mest auglýstu) skoðanirnar sópi til sín.
Kannski er líka óraunhæfast af öllu að ætlast til þess að einhver stjórnmálaflokkur sé með það skýra og afdráttalausa stefnu að hann höfði til mín.



0 Comments:

Post a Comment

<< Home