31.5.02

Ég er uppalandi í Uppalandi...

30.5.02

Er Stoke Joke ?

Spurt var "Myndir þú vilja vera yfirmaður Guðjóns Þórðarssonar ?"

Já, hann veit hvað hann er að gera. - 21%
Já, hann er ljúflingur. - 0%
Nei, er snælduvitlaus í samskiptum. - 10%
Nei, hann myndi sofa hjá konunni minni. - 21%
Spurninginn er gölluð Guðjón er á enga yfirmenn. Vald hans kemur frá Guði. - 48%

Niðurstaða. Spurninginn er náttúrlega gölluð. Maðurinnn er snillingur. Hann er snælduvitlaus í samskiptum en hann veit hvað hann er að gera. Valmöguleikinn um að sofa hjá konunni minni varð óvenju vinsæll 21% og kom það mér skemmtilega á óvart. Spurninginn tengist flökkusögu um Guðjón frá þeim tíma þegar hann þjálfaði hér heima. Sannleiksgildi hennar skal dregið í efa en sagan er fyndin.

Sagan:Guðjón og leikmenn hans voru staddir í búningsherbergjum í hálfleik. Framistaðan hafði verið afburðaslæm í fyrri hálfleik og Guðjón var brjálaður í skapinu. Heldur hann þarna algjöra þrumuræðu og skammast yfir leikmönnunum svo sumum þótti nóg um. En til að það færi ekki framhjá neinum að Guðjón var óánægður með framistöðu sinna manna og að þeir ættu að leggja sig allan fram ákvað hann að enda þetta á hvetjandi nótum. Hann sneri sér að einum leikmannanna horfið á hann illur á svip og sagði: " ef þú tekur þig ekki saman í andlitun og ferð að standa þig inn á vellinum þá sef ég hjá konunni þinni.... aftur."

Og þannig var nú það...

28.5.02

Dauðadeildin: Mínum vefskrifum hefur verið spáð dauða með komandi hausti. Það er bara svona. Maður fær ekki verri ritdóma en þetta eða hvað. Ég er svo slæmur bloggari að ég skal dauður vera og það fljót. Mér finnst gaman að svona rugli. En sérstaklega gaman finnst mér að vera á dauðdeild með þessu ágæta fólki sem þar er. Blóm og kransar afþakkaðir.

Johnny National: Skv hádeigisfréttum fer popparinn og sjónvarpshetjan ekki í fangelsi. Það sem verra er að hann og félagar hans eiga ekki einu sinni að fá dóm. Þetta þykir mér merkilegt. Að henda bensínsprengju á sendiráð erlends ríkis í ölæði er að mínu mati nokkuð líklegt til refsingar í því lagaumhverfi sem við búum við.

En nei, svo er þó ekki í þetta skiptið vegna þess að einhverjum snillingum með lögfræðipróf sem eiga að vita hvað þeir eru að gera, tókst að klúðra ákærunni. Því tók það dómara tæpar 5 mínútur að ákveða að sleppa hipphop snáðunum þremur.

Maður hefði ætlað að Íslenskir lögfræðingar ættu ekki í vandræðum með að klófesta hipphop hryðjuverkamennina í fjársektir eða álíka en neib ekki neitt. Bandaríkja menn lána okkur her og flott dót við björgunaraðgerðir við Íslandsstendur. En við getum ekki einu sinni slegið á puttana á unglingunum sem þurfa að vera að leika sér með bensínsprengjur við svefherbergisglugga sendiherra bandaríkjanna.

Johnny heldur því líklega fram að hann sé listamaður og að þetta hafi bara verið listaverkagjörningur... og menn verða nú að hafa smá tjáningafrelsi... En ef Johnny hefði hent bensínsprengju á húsið þitt værir þú ekki soldið ósátt/ur núna.

27.5.02

Björninn er unninn... Ingibjörg Sólrún á kosninganótt

Ingibjörg á borgina... en við eigum landið Björn Bjarnasson á kosninganótt

Björn borg var líka sænskur tennisleikari... hver vann Eurovision ? Gísli Marteinn á kosninganótt

25.5.02

Kosningar: Sjálfskipuð hefð hefur myndast hér á síðunni að spá fyrir um úrslit eða niðurstöður í málum er mér þykja markverð. Rétt er að rifja upp í fljótu bragði spádóma og niðurstöður. Ég sagði til um rétta niðurstöðu í málinu tengdu í skóm drekans. Þar taldi ég að lögbann væri eðlilegt í ljósi þess að hver einstaklingur hefur rétt á því hvort myndir af honum séu notaðar í listavekum. Hæstiréttur staðfesti grunn minn í dag. Ég ályktaði rétt um að stoke myndi ryðjast upp í fyrstu deild sem og Haraldur Örn stóð undir væntingum mínum þegar hann þrammaði upp á Everest um daginn.

Það er því ljóst að ég er spámaður mikill og raunhæft að taka mark á mér þegar kemur að framtíðinni. Nú aftur á móti er komið að kosningum. Hverju spái ég þar ?
Fyrir mjög áhugasama lesendur er vert að benda á að fyrir þó nokkru síðan áður en kosningabaráttan hófst ályktaði ég á þann veg að niðurstöður yrðu óbreyttar og að R-listamenn myndu fá 8 sæti í borgarstjórn en D-listi 7, aðrir myndu ekki fá neitt.

Raunhæfast væri því að breyta ekki og segja að Gallup og félagar hefður staðfest grunn minn. Það er hin vísindalega nálgun og hún er í flestum tilfellum réttmæt og áreiðanleg. En þó er ég nokkuð hikandi að styðjast við hana óbreytta. Skoðannakannanir hafa að mínu viti nokkuð skoðannamyndandi áhrif. Það er þær leiða fólk áfram og hafa einhver áhrif á skoðanir þeirra.

Þetta getur verið með ýmsum móti s.s. ef húmanistar mælast með 0 % þá er ég að henda atkvæði mínu í ruslið með því að kjósa þá því enginn annar ætlar að gera það. Ef kannanir segja að R listinn sé með 52% þá er meirihluti kjósenda sammála mér ef ég kýs þá og ég er í vinningsliðinu. En einnig má líta svo á að þegar fregnir berast af því að D listinni sé að tapa fylgi að ég kjósi þá því þeir þurfa á því að halda.

Ég hef lúmskan grun um það að það verði enginn 10% munur á milli R & D lista. Ég tel að flökkufylgið og óákveðnir leggist á sveif með D lista á síðustu metrunum vegna þess að þar er einfaldlega gríðalega gott fólk á lista. Málefninn eru keimlík á milli helstu framboða en að mínu viti er mannauðurinn mun miklu betri í röðum sjálfstæðismanna. Ég fyrir mitt leiti var búinn að ákveða að kjósa á flippaðann hátt en hef nú snúið frá þeirri fásinnu.

Í þetta skiptið mun ég velja menn en ekki málefni. D-listinn hefur augljóslegan vinning í þeim málum. Spádómurinn er því þessi sólahring fyrir úrslit: Sjálfstæðismenn fá nauman meirihluta í síðustu talningu kvöldsins. Ástæðan að ég álykta sem svo er að fyrst fjölmiðlaumfjöllun gat haft áhrif á mig, þá er augljóst að hún mun hafa áhrif á aðra. Kerfisbundnarvillur í skoðanakönnunum eru þekkt stærð sem hér á eftir að gera vart við sig. punktur...

23.5.02

Borgarmál - Biðlistar í leikskóla: Það er allt of margt í þreyttri borgarbaráttunni sem maður hefur engar forsendur til að geta metið á réttmætan hátt. Ég veit t.d. ekkert um hvernig best sé að gjaldfæra skuldir og eignir svo fullnægjandi sé, ég veit ekkert um hvaða skipulag á byggð henntar best til lengri tíma litið, ég veit ekkert um stöðu aldraða, ég veit ekki hvort grunnskólar reykjavíkur séu í góðum eða slæmum farvegi o.s.frv.

Ég hef hlustað beinstífa frambjóðendur ryðja upp úr sér tölum og staðreyndum sem svo strax er svarað af öðrum frambjóðanda sem er óvart bara með aðrar tölur og staðreyndir, vitneskja mín er ekki fyrir hendi til að gera upp á milli hver hafi rétt fyrir sér.

Eitt er þó málefni sem ég þekki nokkuð og tengist það biðlistum í leikskólum og barnagæslu málum. Ég á eitt stykki fallega tveggja ára stúlku og hef ég ekki átt í neinustu einum vandræðum með að finna handa henni barnagæslu. Hún hefur verið hjá dagmóður í seljahverfi síðan hún var 1 árs og er sú þjónusta greidd niður af borginni. Nú í vor þegar tátan náði tveggja ára aldri buðust henni tvö leikskólapláss og hefur hún nú þegar hafi leik sinn í öðrum þeim skóla.

En frambjóðendur býsnast ósköp mikið yfir biðlistum og fullyrða að aðkallandi vandamál sé að útrýma þeim. Frá mínum bæjardyrum er ekkert vandamál þó biðlistar séu til staðar. Mikilvægt er að átta sig á því að fólk skráir börnin sín fyrir leiksskólaplássum þegar börn ná 6 mánaða aldri. Foreldrar vita að börn fá ekki pláss strax en foreldrar vilja skrá börnin sín sem fyrst til að auka möguleika sína á því að fá plássið sem fyrst. Því má álykt að stór hluti biðlista séu börn frá aldrinum 6 -18 mánaða. Þetta er sá fjöldi sem vill komast að um leið og eitthvað losnar og reglan er eldri börn fá fyrr inn en yngri. Á meðan er sængur af dagforeldrum sem sækjast eftir því að sjá um gæslu barnanna. Ljóst er því að þó öll börn 18 mánaða og eldri fái leikskólapláss þá mun en vera biðröð af 6-18 mánaða börnum sem vilja komast inn þegar þau eru orðinn nægjanlega gömul. þ.a.l. verða biðlistar en við lýði og skiptir það barasta engu máli.

Það er ekki um stórvæginlegt vandamál að ræða heldur er um að ræða einskonar biðröð eftir plássi. Út frá henni geta leiksskólastjórar og félagsmála yfirvöld áttað sig á þörfinni fyrir leikskólaplássum sem og gert ráðstafanir í tíma.

En hver er ég koma með svona vitleysu nú þegar allir eru búnir að fá nóg af áróðri. Nema að ég er ekki með áróður. Niðurstöðurnar liggja fyrir, skoðanakannanir 2 dögum fyrir kosningar eru mjög áreiðanlegar og skeika aðeins örfáum prósentum. Í kvöldfréttum í kvöld verður líklega birt nýjasta Gallup könnunin og munu niðurstöður hennar standast í öllum megin atriðum. R-listinn heldur velli í þetta skiptið enda er valið ekki beysið. Að kjósa vinstir flokk sem er vinstri flokkur eða hægri flokk sem þykist vera vinstri flokkur. Ég skil hvort eð er ekkert í því sem þetta fólk er að segja.

16.5.02

Spurning: Eru Reykjavíkingar betur settir eftir að nektarstaðir opnuð ? Svör lesenda voru

42 %
Nei 53 %
Veit ekki 5 %

Málið er ekki svart eða hvít heldur svona misjafnlega grátt. Út frá fræðilegum og tölfræðilegum aðferðum má lesa út úr þessum niðurstöðum að lesendur eru svona prinsip fólk. " Allt í lagi að hafa nektarbúlur en ég persónulega fer aldrei á þær og þekki engan sem stundar svona staði." Þetta er svona afstaða sem tekur enga áhættu segir nógu mikið um eitthvað en þó ekkert sem skiptir máli. Málið er því í biðstöðu, í svona haltu mér slepptu mér sambandi við borgarbúa.

Vert er að vekja athygli á nýju spurningunni því hún hefur alþjóðlega tilvísun í skagamanninn knáa Guðjón Þórðarsson.

Spurt er hvar er Ísland ?

Svar: Ísland er í Ísrael........ það er hér með staðfest.

15.5.02

Borgarmál: Nú er maður að verða mettaður af kosningaráróðri. Allir fjölmiðlar troðfullir af síglöðum og loforðamiklum frambjóðendum sem lofa betri heim. Allir ógeðslega snyrtilegir og brosandi með þaulæfðar ræður, mótrök og málefnina á hreinu... samt skil ég ekki neitt hvað þetta fólk er að segja.

Á flestum stöðum virðist baráttan snúast um skólamál og fjármál. Búa á til bestu skóla landsins í öllum sveitarfélögum á landinu. Hver getur staðið við slíkt ? Hvernig getur Kópavogur verið betri en Reykjavík ef Reykjavík ætlar alltaf að toppa Kópavog og öfugt ? Svo ekki sé talað um Garðabæ, Hafnafjörð, Seltjarnarnes, Akureyri o.s.frv. Nei ég bara spyr. Á síðustu þremur vikum virðist vera komin alveg gríðaleg samkeppni í skólamál og allir ætla að toppa hvorn annan. Einn besti frasinn í þessa áttina kom frá ungum frambjóðanda í Kópavogi í kosningarblaði sem ég rakst á þar sem hann fullyrti að ef það væri háskóli í Kópavogi myndi hann fara í hann. Það væri nefnilega svo mikil fyrirhöfn að dröslast til Reykjavíkur í skóla. Við erum að tala um nokkur hundruð metra fjarlægð í skólann, góðar almenningssamgöngur þar á milli svo ekki sé talað um einkabíla, hjólhesta eða tvo jafnfljóta. Ég ætti kannski að kvarta yfir því að það sé enginn Háskóli í Breiðholti eða hvað.

Einnig virðast allir vita lausnina á fjármálarekstri og meðhöndlun skattpeninga. Sjálfstæðismenn þykjast vera betri í obinberum rekstri, R-listinn segist hafa staðið sína vakt vel og F-listinn segist þetta snúast um gildismat. En allir eru sammála um að betur má ef duga skal. Auðvitað er það rétt þegar rætt er um rekstur borgarinnar að alltaf er hægt að gera betur, öll fyrirtæki geta hagrætt, breytt áherslum og vinnuaðferðum. Stundum er það til góðs og stundum til ills og ef það er til ills nú þá er bara breyt til baka aftur.

Umræðan að mínu viti er nokkuð flöt og þurr. Allir eru svo taktískir og almannatengsla sinnaðir að engir sénsar eru teknir á grunndvelli hugsjóna eða framtíðarsýnar. Aðeins er verið að tefla við andstæðinginn, sækja eða verjast. Stóru framboðinn eru að selja ímynd í stað hugsjóna og það er miður.

Botninum var náð í Kastljósi í vikunni þar sem auglýsingafræðingar skeggræddu kosningaherferðir D og R lista. Voru snillingarnir þar sammála um að D listinn væri að vinna. Lúkið væri áferðafallegra, myndræn uppsetning og markvissar birtingar í prennt og ljósvakamiðlum. Í auglýsinga mennsku skiptir nefnilega ekki máli hvort viðkomandi vara sé góð, henntug eða gagnleg. Aðeins skiptir máli að selja neytandanum hugmyndina um að svo sé. Þegar neytandinn er búinn að kaupa og fattar að það sé búið að ljúga að sér þá er það orðið of seint, hann situr uppi með misgóða vöru sem stendur oft ekki undir auglýstum væntingum. Þetta er allt í lagi þegar um ræðir sodastrím tæki og fótanuddtæki en þegar um milljarða króna hagsmunamál er að ræða þurfa menn að standa á stöðugri fótum. Auglýsingarnar eiga ekki bara að vera huggulegar og smart. Málefninn þurfa að vera pottþétt. Því þegar kjósandinn kemur heim á hann að komast að því að varan uppfylli væntingar.

Mér þykir því miður allt of mikill hórdómur vera í kringum kosningarnar og menn í öllum flokkum vera að selja sig ódýrt fyrir hvert einasta mögulega atkvæði. En kannski er þetta bara eðli kosningabaráttu og kannski er ég að biðja um eitthvað sem er ekki til. Kannski er óraunhæft að ætlast til þess að stjórnmálamenn komi til dyrana eins og þeir eru klæddir, óraunhæft að þeir reyni að komast að út á eigin verðleika í stað þess að benda bara á ókosti andstæðingsin. Óraunhæft að vonast til þess að bestu skoðanirnar komist til valda í stað þess að dýrustu (þ.e. mest auglýstu) skoðanirnar sópi til sín.
Kannski er líka óraunhæfast af öllu að ætlast til þess að einhver stjórnmálaflokkur sé með það skýra og afdráttalausa stefnu að hann höfði til mín.



13.5.02

Everest: Þessa dagana er Haraldur Örn ekki að spá í borgarpólitík eins og sumir hér á klakanum. Neib. Hann situr í hlíðum hinar ógurlegu fjallamömmu Mount Everest, horfir til himins og yljar sér við prímus. Hann dregur djúpt andann en lítið reynist vera af súrefni í andrúminu í kringum hann. Hann heilsar pabba sínum í talstöð og hugsar með sér..." ég ætla alla leið. ég ætla." Pabbinn segir þú getur þetta. Haraldur kinkar kolli hugsi og hlustar á beljandan berja á tjaldinu.

Í fjallabúðunum reynast alþjóðleg fjallakvikindi. Allir með sama markmið að komast á toppinn. Þessir fíldjörfu fjallageitur berjast nú við súrefnisskort, kvefpestir og skitu, en skita er klassískt vandamál í háfjallaferðum þó það fari lítið fyrir því í fjölmiðlum. Á næstu 2-3 vikum verða flestir búnir að reyna, gefast upp eða flagga á toppnum. Sumir falla frá því náttúruöflin geta slegið óvænta strengi með litlum fyrirvara.

Haraldur Örn er okkar maður á fjallinu fjórði Íslendingurinn sem reynir uppgöngu. Hann er með vonir þjóðarinnar í vasanum og reynsluna í kollinum... og kannski kúkinn í buxunum. En hann er að fara takast á við verkefni sem toppar margfalt það að troða tuðrum í mörk eða henda drasli yfir grasflöt. Hann er "strákurinn okkar". "Strákarnir okkar" eru ekki lengur inn í myndinni.

Nú hefur stefnan verið tekin og er hún tekinn á toppinn. Á fimmtudaginn er ráðgert að Haraldur nái toppnum. En ekki er hægt að lofa neinu um tímann þannig séð. Hann gæti þurft að bíða af sér blástur á toppnum eða hrista úr sér hóstapest á síðustu stundu. En fylgjumst með og vonum það besta.


10.5.02

Léttara hjal: Eftir miklar sviptingar og hvöss orðaskipti í gegnum bloggið við félaga Sigurð hef ég ákveðið að íþyngja ekki lesendum með lengri rökræðum um strípabúllur. Nú skal huga að niðurstöðum skoðannakönnunar. Mun stoke fara í 1. deild ? var spurt. Pósthólfið mitt yfirfylltist af kvörtunum í einhverjum vælukjóum sem þótti könnunin mín ekki nægjanlega vísindaleg. Við slíkum áburði segi ég nú bara kjaftæði. Hér eru alvöru vísindi á ferðinni. Allar niðurstöður sem hér birtast er 100% sannar og fullkomlega framkvæmdar. Þannig er það bara og punktur.

Lesendur mínir eru vongóðir fyrir leikinn á morgun. 87% segja að já auðvitað vinnur stoke það er tími til kominn og síðan held ég með Guðjóni. Aðeins aum 13% segja nei þeir eiga það ekki skilið. Eftir mikla yfirlegu og tölfræðlegann samanburð og marktækta reikninga kemst ég því að því að Stoke muni vinna leikinn á morgunn. Lesendur mínir sem eru alvöru fólk segir að þeir muni vinna því mun stoke vinna. Þetta er ekkert djók heldur vísindi. Þið trúið mér kannski ekki núna því vantrúaðir þurfa alltaf sönnunargögn. En ég er með sönnunargögn. Á morgun laugardag geta allir horft á sýn og séð þetta í beinni með eiginn augum. Stoke vinnur pottþétt. Mín persónulega spá er að niðurstaðan verði 2-1 fyrir Stóke en þó er það ekki á vísindum byggt heldur lélegri getspá. Úrslitunum verður þó ekki haggað. Stóke er komið í 1.deild.

9.5.02

Nektardansstaðir: Ég hef verið rökkræddur út í horn. Siggi hefur unnið mig, ég er sannfærður. Nektastaðir eru hið besta mál, ef ég er ósammála því þá hef ég rangt fyrir mér, ég má ekki hafa aðra skoðun en þá réttu skoðun sem birtist á skoðun.is. og hana nú. og N.B. það er ég sem er fastistinn...

Ég er nefnilega þannig að ég "tek" mér þau réttindin til að hafa skoðanir á ýmsum hlutum. Í því ljósi "tek" ég mér þann rétt að hafa skoðun á nektardansstöðum. Mín skoðun er sú að það eigi ekki að ýta undir slíka starfsemi og með flestum ráðum eigi að reyna að draga úr þessari starfssemi eða í versta falli flytja hana úr miðbæ Reykjavíkur. Sú skoðun er ekki vond eða slæm eða óæskileg þó fólk sé ekki endilega sammála mér. Í henni flest sú sannfæring mín í vissum tilfellum þurfi að fórna minni hagsmunum fyrir meiri. Með fráhvarfi nektarstaða mun lítið tapast. Ef hið opinbera íhlutast um það að draga úr starfsemi þeirra eða loka þeim er aftur móti verið að hlusta á skoðun margra í þjóðfélaginnu sem telja að slík starfssemi sé óþörf. Og ef stór hluti fólks er sammála því að draga eigi úr starfsskilyrðum slíkra staða þykir mér eðlilegt að löggjafinn reyni að fara eftir vilja fólksins.

Það er aftur á móti ekki töff að vera á móti nektarstöðum. Það er í raun ekki töff að vera á móti neinu í dag en þannig er nú bara bransinn. En gleymum því ekki að ég er fasisti því ég hef "skoðun". Penninn á skodun.is hefur aftur á móti rétt fyrir sér, því þar er vitnað í confúsíus.

7.5.02

Nektarstaðir: Siggi félagi minn er fyndinn. Í nýjasta spistli sínum réttlætir hann fyrir sjálfum sér að nektarstaðir eigi rétt á sér. Þar kemst hann ansi skemmtilega að orði og segir: "Starfsmenn nektardansstaða eru líka fólk sem hefur tilfinningar og er umhugað um æru sínu". Það er nefnilega það, ætli ekki sé best að bæta við að þetta er allt saman menntaðarfull listafólk að leggja stund á list sína.

Nei, þetta er bara drullupakk í drullubissnes og þannig er það bara. Siggi fer þá klassísku leið að verja þennan bransa á þeim forsendum að aðeins sé um grunað vændi að ræða á þessum stöðum og að engir dóma hafi fallið þess til sönnunar. Einnig að þarna sé um sjálfráða fólk sem velur að stunda þessa atvinnu og/eða skemmtun. Alltaf gaman að ræða um frelsi einstaklingsins og réttindi og gleyma t.d. mannréttindum og verkalýðsréttindum.

Til að heildarmyndin sé ekki röng þá þarf að bæta nokkrum atriðum við. Siggi nefnir ekkert að mannsal í kynlífsiðnaði er alþjóðlegt vandamál sem teygir arma sína út um alla Evrópu. Hann nefnir ekki heldur að þessar stelpur hafa engan fulltrúa verkalýðsfélaga sem fylgist með því að vinnuaðstaða, launataxtar og vinnutími sé virtur. Þær hafa ekki fullt aðgengi að heilbrigðisþjónustu eða félagsþjónustu. Hann nefnir ekki að þarna er ætlast til þess af ungum stelpum að þær séu fáklæddar og ölvaðar og í þannig ástandir og klæðnaði eiga þær að selja áhorf á líkamann sinn og auka söluna á barnum. Í ofan á lag gleymir hann að það hafa verið mál þess efnis þar sem stúlkur hafa þurft að leita til lögreglu, Stígamóta og sendiráða til að komast undan þessum setlegu og virðulegu atvinnurekendum. Þessar stúlkur hafa m.a. sagt frá því að vegabréfin séu teknin af þeim við komu til landsins og að þeim sé þröngvað til að stunda einkadans eða vændi.

En nei, nei þetta er allt fólk sem er umhugað um æru sína. Og vegna þess að ég er sammála því að reynt sé að draga úr útbreiðslu þessara staða vill Siggi flokka fólk eins og mig undir merki siðferðislegs fasisma. Ég held svei mér þá að sumir gleymi sér aðeins of mikið við lyklaborðið þegar þeir eru að blogga.

6.5.02

Spurning: Haraldur Örn er þessa dagana að undirbúa sig fyrir að herja á einn erfiðasta hnjúk veraldar. Lesendur hafa fengið tækifæri á að láta skoðanir sínar í ljós á þessu verkefni og eru niðurstöður eftirfarandi:

Já, hann er með reynsluna: 30 %
Nei, veðrið á eftir að setja strik í reikninginn: 21%
Kannski, ég veit ekkert um svona: 3%
Alveg sama, ég þoli ekki fjallamenn: 45%

Fólk er því bæði bjartsýnt fyrir hans hönd og neikvætt því það fílar ekki íþróttina. Mín skoðun er sú að Haraldur hefur nú þegar framið mesta íþróttaafrek Íslandssögunar. Það er ekki hægt að líta fram hjá honum sem íþróttamanni ársins þetta árið. Í einni romsu hefur hann skrölt yfir pólana sem og 6 hæðstu fjöll veraldar. Markmiðið er að klára pakkann og veifa fána á Everest. N.B. íþróttir eru ekki íþróttir af því að fólk keppir um bikara eða medalíur. Íþróttir snúast afrek og að gera betur en aðrir í kringum sig. Það er því ljóst að Haraldur hefur nú þegar gert stærri og betri hluti en aðrir íslenskir og alþjóðlegir fjallamenn og hrein móðgun er að segja að hann sé ekki í sambærilegur við íþróttamenn með sixpack sem hendast upp í ca. 5 metra með stöng eða öskra reiðilega meðan þeir kasta spjóti.

Ég las bókina Into thin air eftir Jon Krakauer fyrir nokkrum árum og lýsir Krakauer þar uppgöngu á Everest örlagaríka árið 1996. Bókinn er lífsreynsla út af fyrir sig. Eftir lesturinn er enginn maður ósnortinn af þeim erfiðleikum sem fylgja því að klífa Everest. Veður, reynsluleysi fólks á fjallinu, múgæsingur og ferðamannaiðnaður getur gert fjallið óklífanlegt með öllu á nokkrum mínútum. En vonandi hefur verið gripið til fyrirbyggjandi úrræða til að koma í veg fyrir harmleikin árið 1996 þegar 8 manns dóu á fjallinu á nokkrum klukkutímum.

Minn spádómur er að Haraldir muni takast að klára þetta vegna þess að reynsla hans er það mikil og hún er það sem telur í þessum bransa. Veðrið mun auðvitað hafa sína hentisemi en reynsla Haraldar mun að öllum líkindum nýtast honum til að meta aðstæður rétt. Ég óska Haraldi til hamingju með titilinn Íþróttamaður ársins árið 2002.

2.5.02

Undirskriftalistar: Aldrei skal taka mark á undirskriftalistum. Fólk skrifar undir allt. Og það eru alltaf einhverjir sérvitringar sem biðja fólk um að skrifa undir ótrúlega heimskuleg málefni. Hérna er heimasíða sem hjálpar fólki að koma svona vitleysu af stað.

Hérna er svo dæmi um slíkan ófögnuð. Einhverjir félagar vilja að titli næstu Lord of the rings myndar verði breyt. The Two Towers hefur bókinn heitið í 47 ár og nú vegna atburðana 11. september þykir ekki við hæfi að gefa út ævintýramynd með þessum heiti. Svonalagað flokkast varla undir heilbrigt málfrelsi. Þetta er náttúrlega ekki hægt.

Stoke: Það er svo yndislega fallegt að halda með lélegu lið í 2.deild. Stókarar mörðu sig í úrslitaleikinn í gær og var leikurinn hin besta skemmtun þó knattspyrnan hafi verið skemmtilega léleg. Nú fer maður bara að safna sér fyrir bjór til að geta horft á þá tapa í úrslitaleiknum 11.mai. En kannski vinna þeir. Þá þarf maður bara að finna sér annað lélegt lið í 2.deild til að halda með. Cardiff eru svo sem ágætis candidat í þeim efnum.

1.5.02

Harry Potter: Fréttir herma að fimmta bókinn sé á leiðinni og það meira að segja á þessu ári. Fyrir aðdáendur á öllum aldri eru þetta mjög góðar fréttir.

Ég tók mig til fyrr á þessu ári og tætti þessar fyrstu fjórar í mig og hafði barasta nokkuð gaman af. Ekki jafn íburðamikil verk og t.d. Lord of the rings. En samt sem áður nokkuð smellnar bækur. Sá mælikvarði sem ég set iðulega á gæði bóka er hvort bókinn nái að fanga athygli mína. Ef ég get byrjað á bók og hef enga löngun til þess að klára hana hefur það ekki tekist. En ef ég byrja á bók og vil fá meira þegar hún endar þá hefur þetta tekist. Harry Potter, Lord of the rings og Grisham (ekki þó í seinni tíð) tekst þetta ágætlega upp. Það sama á meiri segja við um sumar ágætar námsbækur og fræðibækur sem ég hef lesið.

Ein góð sálfræði bók sem allir ættu að lesa er ERTU VISS?: BRIGÐUL DÓMGREIND Í DAGSINS ÖNN eftir Thomas Gilovich. Fjallar hún um ályktunarhæfni fólks í daglegu lífi og er skrifuð á mannamáli. Í henni farið yfir margar ályktunarvillur fólks í hinu daglega lífi og sérlega skemmtilegt að átta sig á því að almennt séð er fólk ótrúlega lélegt í að beita fyrir sér tölfræði og líkindum þegar það tekur ákvarðanir.